17.4.2008 | 09:23
Fundurinn markar upphaf samráðs við íbúa
Fréttir af fundinum í gær
(af mbl.is) Færri komust að en vildu þegar opnað var á spurningar í sal Kennaraháskóla Íslands á sjöunda tímanum í gærkvöldi. Vel á annað hundrað manns á öllum aldri voru þar á samráðsfundi með borgaryfirvöldum og framkvæmdaraðilum vegna fyrirhugaðrar byggingar mislægra gatnamóta Miklubrautar og Kringlumýrarbrautar og tengdra stokkalausna á stofnbrautunum.
Fundurinn markaði upphaf samráðsins við íbúa og brunnu því fjölmörg málefni á íbúum. Á meðal þess sem spurt var um var fyrirkomulag hjólreiðagatna, gönguleiða og almenningssamgangna, mengunarvarnir og hreinsibúnaður í stokkum, stærð hljóðmana, hljóðvist, hugsanlegur umferðarhraði, umferðarþungi og margt fleira. Ekki síður höfðu íbúar áhyggjur af öryggismálum á meðan framkvæmdirnar munu standa yfir og mögulegum neikvæðum áhrifum breytinganna á afmarkaða staði. T.a.m. var spurt út í staðsetningu gangamunnanna og mögulega svifryks- og hávaðamengun við þá.
Erlendar hraðbrautalausnir
Frummælendur á fundinum voru Gísli Marteinn Baldursson, formaður umhverfis- og samgönguráðs, Hilmar Sigurðsson, formaður íbúasamtaka Hlíða, Holta og Norðurmýrar, og Baldvin Einarsson, yfirverkfræðingur hjá Línuhönnun, sem kynnti núverandi hugmyndir Vegagerðarinnar um lausn samgangna á svæðinu. Gísli Marteinn sagði tillögurnar sem þarna voru kynntar ekki endanlegar, heldur yrði settur á fót samráðshópur með íbúum. Ekki væri ætlunin að troða ofan í kokið á íbúum lausn sem þeir kærðu sig ekki um.
Hilmar Sigurðsson gagnrýndi margt í tillögunum og sagði þær minna á hraðbrautamannvirki að erlendri fyrirmynd, t.d. stórar hljóðmanir meðfram Miklubraut. Hilmar sagði nauðsynlegt að endurskoða markmiðin með framkvæmdunum og forgangsröðun þeirra. Í forgang skyldi setja lífsgæði fólks sem býr nálægt umferðaræðunum, því næst huga að samgöngum hjólandi og gangandi vegfarenda og í þriðja lagi að umferðarflæðið þyrfti að hugsa til enda og í stærra samhengi.
Baldvin lýsti svo m.a. hugsanlegri áfangaskiptingu verksins. Fyrsti áfangi, gatnamótin og nærliggjandi stokkar gætu kostað 6,8 milljarða króna á verðlagi síðustu áramóta, annar áfangi 2,6 milljarða og sá síðasti 2,8. Síðari áfangarnir yrðu stokkar og endurbætur á Miklubraut vestan Kringlumýrarbrautar.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.