Ákvörðun um að loka vinstri beygju mótmælt harðlega

Stjórn íbúasamtaka Bústaða- og Fossvogshverfis samþykkti 27. nóvember 2008 að mótmæla harðlega fyrirhugaðri lokun vinstru beygju af Bústaðavegi inn á Reykjanesbraut. Borgarráð Reykjavíkur samþykkti 27. nóvember að loka beygjunni til reynslu í sex mánuði í þeim tilgangi að draga úr álagi við gatnamótin. Stjórnin telur að umferð um Réttarholtsveg muni stóraukast í framhaldinu og þar sé hún nú þegar alltof mikil og hröð.  Stjórnin treystir því að borgarstjórn ógildi þau mistök borgarráðs að samþykkja lokunina. Stjórnin bendir borgarfulltrúum á að Réttarholtsvegur kljúfi skólahverfi og yfir götuna þurfi hundruð barna að ganga á degi hverjum. ,,Mikil mildi er að ekki hafi orðið stórslys á gangandi vegfarendum á Réttarholtsvegi og bráð nauðsyn að bæta þar umferðaröryggi og draga verulega úr umferð um götuna frá því sem nú er," segir í ályktun stjórnarinnar. Samþykkt borgarráðs um að heimila lokun kemur íbúum Bústaðahverfis í opna skjöldu þar sem borgarstjóri hafði síðastliðið vor heitið íbúum hverfisins að hugmyndir um lokun vinstri beygju af Bústaðavegi inn á Reykjanesbraut hefðu verið slegnar af.

Í Morgunblaðinu 3. desember er haft eftir Ólafi Bjarnasyni, samgöngustjóra Reykjavíkurborgar, að umferð um Réttarholtsveg muni liklega aukast um 10% þegar vinstri beygja af Bústaðavegi inn á Reykjanesbraut verður bönnuð í upphafi árs 2009. Fram kemur að um 2.000 bílar taki þessa beygju á degi hverjum og sú umferð muni eftir breytinguna fara að mestu um Réttarholtsveg en einnig um Grensásveg. Þá muni einhverjir aka út á Reykjanesbraut og taka síðan u-beygju til að komast leiðar sinnar.


« Síðasta færsla

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband